Vigdís Gígja Ingimundadóttir, umsjónar- og tónlistarkennari tók á móti Hvatningarverðlaunum skóla og frístundaráðs Reykjavíkur á Öskudagsráðstefnu grunnskólakennara í Hörpu. Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur veitir árlega verðlaun fyrir nýbreytni- og þróunarverkefni í skóla- og frístundastarfi í Reykjavík. Verðlaunin eru veitt fyrir verkefni sem þykja skara fram úr og vera til eftirbreytni. Markmiðið er að veita starfsfólki í skóla- og frístundastarfi hvatningu í starfi, vekja athygli á gróskumiklu fagstarfi í borginni og stuðla að nýbreytni. Verkefni Waldorfskólans Sólstafa sem tónleikastaður Iceland Airwaves Off Venue hafði það að markmiði að gera tengingar á milli skóla, lista og samfélags, með því að taka þátt í alþjóðlegum samtímatónlistarviðburði og umbreyta skólaumhverfinu í tónleikavettvang. Skólinn, sem er í uppbyggingu, tók í notkun nýbyggingu í ágúst 2017 sem kennarar töldu að gæti hentað vel fyrir tónleika, til þess að kynna skólann og opna gátt á milli skólasamfélagsins og almannarýmisins. Áhugi var fyrir hendi að prófa framsæknar aðferðir í tónlistarkennslu og skapa rými þar sem nemendur, kennarar, foreldrar, fjölskylda/vinir, tónlistarmenn og utanaðkomandi gestir gætu átt stund saman. All nokkrir foreldrar sem vinna með tónlist tóku þátt og tengdust verkefninu. Lagt var upp með að nemendur fengju tækifæri til þess að taka þátt í undirbúningi viðburðarins og taka þátt í flutningi, bæði með æfð atriði og í frjálsu flæði. Nemendur gerðu m.a. auglýsingar, settu upp tónleikarýmið, skreyttu, og slóu upp kaffihúsi. Verkefnið var þróunarverkefni í tónlistarkennslu þar sem nemendur kynntust og fengu að prófa mismunandi hljóðfæri, kynntust ferli tónleikahalds, tónlistarstílum og tónlistarfólki og upplifðu stemninguna og eftirvæntinguna sem tengist því að taka þátt í viðburði af þessum toga. Með verkefninu var nemendum gefinn kostur á því að taka þátt í og upplifa samtíma tónlistarviðburð í stað þess að lesa um hann eða heyra um hann.