Skólinn opnar 8.00 og kennsla hefst kl. 8.45 og lýkur kl. 14.40. Boðið er upp á frístund/lengda viðveru til kl. 16.10
Hver dagur í Waldorfskólanum hefst með samsöng allra nemenda og kennara. Bekkjarkennari heilsar nemendum sínum, hverjum og einum við upphaf aðalkennslu. Aðalkennslustund er daglega og þar eru námsfög kennd í törnum sem geta verið frá 2 vikum allt upp í 5. Hjá yngri nemendum eru tarnirnar lengri. Í skólanum fléttast sterk hrynjandi inn í hverja kennslustund, viku og árstíð. Margar hátíðir setja svip sinn á skólaárið og gefa tilefni til undirbúnings og eftirvæntingar. Heimanám yngri nemenda er í lágmarki og ætlast er til þess að flestir nemendur geti lokið verkefnum dagsins innan skólatímans.
Eftir aðalkennslustund eru styttri tímar fram að hádegi þar sem hin ýmsu fög eru tekin fyrir.
Handverk er kennt þrisvar í viku, eftir hádegi og er verklegri kennslu gert hátt undir höfði í starfi skólans. Í skólanámsskránni er handverksnámsskrá skólans kynnt og fjallað um mikilvægi þessarra verklegu ferla.
Skóladeginum lýkur 14:40 og er boðið upp á frístund/viðveru innan skólans fyrir nemendur frá 1-4.bekk. Frístundin er skipulögð í tengslum við skólastarfið og bekkjarkennara yngsta stigs.
Tilgangur skólans
Í skólanum er vistvernd og umhyggja fyrir náttúrunni höfð í hávegum og má lýsa tilgangi skólans sem svo:
- Að veita nemendum góða menntun.
- Að hlúa að heilbrigðum þroska í hverju barni.
- Að gera börnunum kleift að nýta hæfileika sína.
- Að hjálpa börnunum að þróa þá færni sem þau þurfa til að leggja sitt af mörkum í samfélaginu.
- Að gera foreldrum mögulegt að velja skóla og uppeldisstefnu í samhljómi við eigin lífsýn.
- Að gera kennurum og starfsfólki kleift að starfa við skóla þar sem gildi þeirra samræmast gildum skólans.
Það sem einkennir gott skólastarf er öflug skólaþróun og samvinna. Eitt af einkennum Waldorfskólans er mikil samvinna og sköpun starfsfólks. Einkenni á samvinnumenningu hans er að hún er sprottin af frumkvæði kennarahópsins. Árangur af samvinnu er margfaldur bæði er kemur að námi, kennslu og rekstri skólans.
Valddreifð er eitt af einkennum samvinnumenningar skólans og er frumkvæði og valdið hjá kennurum sjálfum. Samvinnan beinist að verkefnum sem kennarar eiga frumkvæði að og telja mikilvægust og mest aðkallandi hverju sinni.
Meðal einkenna á starfsumhverfi skólanna er áhersla á að vinna á styðjandi og skapandi hátt með starfsfélögum. Má þar nefna reglulegar og markvissar samræður, stöðugt nám og starfsþróun starfsfólksins, ásamt mikilvægum liðum í heildarþróun skóla sem eru þátttaka og aðild nemenda og foreldra að starfi þeirra.
Í Waldorfleik- og grunnskólanum vinna kennarar og starfsfólk saman að því að undirbúa, framkvæma, rannsaka og meta nám og kennslu. Með því að brúa bilið milli fræða og framkvæmda og bera sameiginlega varanlegt þróunarstarf, kenna kennarar hver öðrum og þroskast sameiginlega í starfi.
Skólaumhverfið er skapað fyrir nemendurna og byggt í kringum uppeldisfræðilegan margbreytileika Waldorf-stefnunnar sem gefur nemendum gott leik og námsumhverfi gegnum þroskaferðalagið frá leikskóla til loka grunnskólans.
Þegar gengið er inn í húsnæðið býður það nemendur og starfsfólk velkomið. Húsnæðið er með mjúkum línum, byggt úr náttúrulegu og vistvænu byggingarefni, málað í ákveðnum ljósum litum.Við hönnun á hverju rými er fundinn persónuleiki þeirrar starfsemi sem þar fer fram og þarfir nemenda og kennara sem þar starfa. Er því gengið skrefi lengra en það sé eingöngu hlýtt og fallegt. Ef við byrjum í leikskóla og 1. bekk þá eru rýmin í hringformi og litatónar ferskju rauðir eða gulir. Við teljum þá róandi og skapa stuðning og traust hjá börnum á þessu þroskastigi.
Hjá nemendum í 10. bekk eru þroskaþarfir aðrar og rýmið öðruvísi en á yngri stigum. Litur rýmis er bláleitur sem styrkir vitsmuna- og einbeitingarkrafta unglingsins, þá á að vera hátt til lofts og yfirlýsing sem ýtir undir að nemandinn standi á eigin fótum. Oft í kennslustofum fyrir nemendur á unglingastiginu er komið fyrir stiga eða jafnvel ræðupúlti þar sem unglingunum er gert auðveldara að koma skoðun sína á framfæri til kennara og samnemenda.
Skólaeldhús
Í skólaeldhúsinu er boðið upp á einfalda grænmetisrétti í hádeginu sem er útbúinn úr lífrænt ræktuðu grænmeti, eftir því sem kostur er.