Lífsleiknivikan okkar er nú að detta inn í næstu viku, frá þriðjudegi til föstudags. Þá munu allir bekkir nema 9-10.bekkur fara í grenndarskóginn okkar í Öskjuhlíð og setjast þar að í fjóra daga á skólatíma.
Nemendur mæta í skólann eins og venjulega og leggjum við af stað frá skólanum um tíuleytið. Mikilvægt er að nemendur séu vel búnir til að vera í útinámi allan daginn.
Eldað verður og borðað úti þessa daga og á miðvikudegi tökum við á móti leikskólabörnum úr Waldorfleikskólunum líka.
Föstudaginn 2.október verður svo uppskeruhátíð í lok vikunnar og eru foreldrar velkomnir til okkar í hádeginu. Við borðum um 12:30 en það er velkomið að koma fyrr og taka þátt í leiknum.
Mikjálsmessa er þann 29.sept nk. og er það hefð í Waldorfskólum að halda hátíð um það leyti. Goðsagnir Mikjálsmessu tengjast þemanu í drekaleiknum, þar sem heilagur Georg berst við drekann, innblásinn af hugrekki andans.
Í drekaleiknum eru yngri nemendur og kennarar þorpsbúar og hópur eldri nemenda drekar og er eltingaleikur eða “pottleikur” alla vikuna þar sem rammi leiksins býður upp á að vinna með þætti eins og félagsfærni, samvinnu, tillitsemi, hjálpsemi og fórnfýsi.
Að auki er handverki gert hátt undir höfði og unnið í nokkrum smiðjum yfir vikuna. Leikurinn er ennfremur tækifæri fyrir börn og fullorðna til að taka þátt í sameiginlegri leikgleði.