Leikskólinn er opin frá kl 8:00-17:00. Boðið er uppá 8 klst dvöl og geta foreldrar og forráðamenn valið eftirfarandi tímasetningar:
Kl 8:00-16:00
Kl 8:30-16:30
Kl 9:00-17:00
Leikskólinn fylgir sterkri hrynjandi í gegnum daginn, vikuna og árstíðirnar og starfið mótast af því. Skipulagt starf hefst með morgunhring. Sest er niður við kertaljós, söng og fingraleiki. Allir heilsa nýjum degi saman t.d með versi eins og þessu:
Á jörðinni við stöndum
og sjáðu, hér stend ég
með himinbogann yfir höfði mér,
í hendur haldast vinir
Morgunhringur
Morgunhringurinn markar upphaf leikskóladagsins og er það sérhverju barni mikilvægt að að vera þáttakandi í honum.Að morgunhring loknum finna börnin sér efnivið í frjálsan leik. Leikurinn er tjáning barnsins og hér er lögð höfuðáhersla á það að börnin njóti sín í leik. Efniviðurinn er úr náttúrunni; tré, ull, silki, bómull og einnig steinar, skeljar og aðrar gersemar. Reynsluheimur barnsins kristallast í leik þess og þar mótast einnig félagsleg færni þess og samvinna hópsins. Á meðan börnin leika sér gefur kennarinn sig að hagnýtum og listrænum viðfangsefnum sem þau geta strax líkt eftir, t.d. matseld, handverki eða umhirðu leikfanga. Þannig upplifir barnið hinn fullorðna sem vinnuglaðan og skapandi einstakling.
Vinnustund
Eftir leiktímann er vinnustund með eldri börnunum, þar sem hver vikudagur hefur sitt verk. Unnið er að listum eða handverki. Eftir vinnustund er morgunhressing og síðan útivera fram að hádegismat. Leikur úti einkennist af meira rými til hreyfinga og annarskonar leikja eins og vinnu með frumöflin jörð, loft, vatn og eld, smíðavinnu og garðyrkju.
Sögustund
Að hádegisverði loknum er hvíld og sögustund. Sagan er sögð, ekki lesin úr bók eða af bandi. Þannig kynnist barnið tungumálinu og söguflutningi á lifandi hátt og sérstök tengsl skapast á milli sögumanns og áheyranda. Sögurnar birta barninu myndir úr ævintýraheiminum sem lifna innra með því, örva ímyndunarafl þess og veita því styrk í leik og starfi. Eftir sögustund tekur aftur við frjáls leikur fram að seinni útiveru. Þá er skipulögðu starfi lokið og við tekur síðdegishressing og róleg stund þar til börnin fara að tínast heim.