Kennarar og starfsfólk skólans hafa undanfarin 10 ár sótt símenntunarnámskeið í Osló að sumri, sem haldið er af norsku Waldorfkennarasamtökunum. Á námskeiðinu er unnið markvisst að uppbyggingu námsins ásamt reyndum kennurum. Skólinn hefur einnig staðið að eigin símenntunardögum að hausti, þar sem reynsla sú er fengist hefur hér heima er nýtt til fræðslu. Sólstafir eru einnig með símenntunardaga ár hvert þar sem erlendir gestir/fyrirlesarar hafa boðið starfsfólki upp á spennandi viðfangsefni út frá hugmyndafræði Waldorfstefnunnar í fjarkennslu eða á námskeiði. Leikskólastig og grunnskólastig Sólstafa eru einnig með þróunarvinnu á sameiginlegum starfsdegi á vorönn.
Kennurum skólans hefur verið gert kleift að stunda meistaranám í Waldorf uppeldis- og kennslufræði í fjarnámi frá Waldorfkennaraháskólanum í Osló og hafa nú þegar 2 kennarar skólans útskrifast úr því námi og hefur skólinn einnig stutt kennara til waldorfkennararéttinda frá Svíþjóð og Kanada. Einn af kennurum skólans er sem stendur í fjarnámi til kennsluréttinda á meistarastigi við HÍ.
Símenntunaráætlun Waldorfskólans fyrir skólaárið 2023-2024 miðar að því, eins og undanfarin ár, að kennarar vinna þróunarvinnu í sambandi við skólanámsskrá og námsmat skólans og fari á árleg símenntunarnámskeið auk þess sem hver kennari skoðar þau námskeið sem eru í boði á þeirra sviði.
Hér er hægt að nálgast símenntunaráætlunina: Símenntunaráætlun 23-24